Fréttir 2005

Vinnufundurinn með Hannesi Flosasyni
Rétt tæplega 40 mans mættu á fundinn s.l. laugardag.
Þar sýndi Hannes Flosason okkur Video með kynningu á tréskurðarnámskeiði sínu og hafði með sér klukku sem skorin er út í Mahogany.


Hannes hvatti trérennismiði til að nýta sér tréskurðartæknina,
í bland við trérennslið,til að auðga fjölbreytnina í renndum munum.
Einnig kom fram nemandi Hannesar,Víðir Árnason, með brjóstmynd af Beethoven, skorna út í lind.

Guðmundur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri, sýndi okkur rennt og málað box.


Vel má sjá hver fyrirmyndin er ef að er gáð.

Að verðleggja framleiðsluna
Hvern langar ekki til að ná inn aftur hluta af þeim fjárfestingum sem lagðar hafa verið í trérennslið? Að selja eitthvað af framleiðslunni upp í kostnað.
Að mörgu er að hyggja og seint verður allt meðtalið.Notast má við útreikninga markaðsfræðinnar. Enn þar sem vinnuhraði og vandvirkni er mjög einstaklingsbundin, verður að segjast að allur útreikningur er vandasamur og vandfundinn meðalvegur til sanngjarnar verðlagningar.

Verðlagning byggð á kostnaði =
( Verð hráefnis þ.m.t. yfirborðsefni )
+ ( unnar stundir x tímakaup* )
+ ( unnar stundir x rekstrarkostnaður ** )
x ( 1 + viðunandi % hagnaður/þóknun )

* Á að miða við lögbundin lágmarkslaun?
** Rekstrarkostnaður =
m.a. tækjakostnaður,húsnæði,rafamagn,hiti,
fluttningskostnaður efnis,viðhald,tryggingar
og önnur gjöld v/vinnu og vinnuaðstöðu.

Eitt er víst, að of lág verðlagning skaðar í fyrstu framleiðandan enn hefur óneitanlega líka áhrif á þá sem ef til vill langar að reyna að byggja afkomu sína á trérennismíði. Þó má alvarlegast telja að undirverðlagning rýrir verðmætamat markaðarins á gildi trérennismíði og hefur því áhrif á alla trérennismiði.
(Lauslega yfirfært úr tímariti Amerískra trérennismiða)

Munið eftir fundinum laugardaginn 29. október!
Hannes Flosason, myndskurðarmeistari verður gestur fundarins næsta laugardag. Félagsmenn og konur meiga eiga von á áhugaverðum fundi og þarf varla að hvetja félagsmenn til að mæta. Eins og vanalega byrjar fundurinn kl. 10 f.h. og verður í smíðadeild Kennaraháskóla Íslands að Skipholti 37, 2. hæð.
Hannes Flosason er fæddur 12. mars 1931 á Hörðabóli í Mildalahreppi í Dalasýslu.Hann hóf nám í myndskurði hjá Guðmundi Kristjánssyni myndskurðarmeistara 1950. Hann stundaði einning nám hjá Ágústi Sigmundssyni, Guðmundir Kristjánssyni og Wilhelm Beckmann og lauk sveinsprófi í mynsdkurði 1954. Hannes kenndi um tíma myndskurð í Handíða- og myndlistaskólanum. 1972 var hann beðinn um að vera með tvö námskeið í myndskurði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Í kjölfarið stofnaði hann Skurðlistaskóla Hannesar Flosasonar sem er starfræktur enn í dag. Náminu er skipt í 7stig. Í hverju stigi eru 6 skylduverkefni þar sem nemendur þjálfast í fjölbreyttum tækniatriðum. Auk þess geta nemendur valiðúr 200 valverkum. Eftirgerð listaverka er mjög gagnrýnd nú á dögum en það er aldargömul hefð fyrir því t.d. í málaralist að láta nema endurgera verk meistara síns. Það hafa hundruðir nemenda stundað nám hjá Hannesi á þessum rúmlega30 árum sem hann hefur starfrækt skólan sinn og þeir sem lokið hafa 7 stigi skipta tugum. Árið 2000 útskirfuðust þau Anna Lilja Jónsdóttir og Örn Sigurðsson með sveinspróf ímyndskurði en slíkt hafði ekki gerstí 46 ár. Þau höfðu bæði stundað m.a. nám hjá Hannesi Flosasyni.

Áhugaverð síða um trérennismíði á veraldarvefnum.
Á veraldarvefnum er að finna þessa áhugaverðu síðu fyrir trérennismiði.
Slóðin er: http://www.woodturningonline.com
Þar er hægt að nálgast úrskýringar í máli og myndum á margskonar verkefnum,stórum og smáum,auðveldum og erfiðum. Ef smellt er á Turning Projects , þá er þar meðal annars að finna þetta skemmtilega leikfang sem á ensku er kallað; BALL & CUP TOSS TOY.

Flest öll verkefnin eru útskýrð í máli og myndum svo að vel má skiljast án mikillar ensku kunnáttu.

Nú styttist í vinnustaðafundinn 29. október 2005
Von er á Hannesi Flosasyni,tréútskurðarmeistara á fundinn 29. þ.m., og má því vænta að margir hafi áhuga á að njóta fróðlegrar stundar með honum. Fræðslunefndin er ekki alveg tilbúin með hvað verður tekið fyrir á nóvember-fundinum,en vænta má góðrar stundar engu að síður.
Allir áhugamenn og konur um trérennismíði eru velkomin á vinnufundi félags trérennismiða í Skipholti 37, 2. hæð, í húsnæði smíðadeildar Kennaraháskóla Íslands.Þeir sem áhuga hafa geta einnig gerst félagar.
Fundirnir eru haldnir kl. 10 f.h. síðasta laugardag í september,október og nóvember og svo aftur í janúar,febrúar og mars.Vetrarstarfinu hefur síðan lokið með vorferð í endaðan apríl eða byrjun maí, allt eftir því hvernig páskar og aðrir helgidagar lenda í árinu.Í þessum ferðum hafa félagsmenn hitt trérennismiði (og annað galdrafólk í handverki og smíðum), á landsbyggðinni og í Færeyjum
Á vinnufundina hafa ýmsir komið og frætt okkur um það sem þeir eru að fást við. Hafa það verið félagsmenn og aðrir fróðleiks menn og konur, sem hafa deilt með okkur fróðleik sínum og annað áhugavert efni , í tengslum við áhugamál okkar þ.e. trérennismíði.

Í lok fundar er boðið upp á kaffisopa og spjall og vonast er til að sem flestir áhugasamir um trérennismíði á Íslandi mæti og njóti samverunnar.Reynir Sveinsson, fyrrverandi formaður, í þungum þönkum við að leysa renda þraut.

Fréttir af vinnufundi


Vinnufundur félags trérennismiða sem haldin var laugardaginn 26. nóvember s.l. var vel sóttur að vanda.
Úr svip flestra viðstaddra skein áhugi og einbeitt eftirtekt.

Lýður sýndi okkur m.a. hvernig hann vann yfirborðið á vasanum sem hann var með á sýningunni í Færeyjum og var á forsíðu síðasta fréttabréfs.

Vinnufundurinn verður 26. nóvember næstkomandi, kl.10 í húsnæði Kennaraháskóla Íslands í Skipholti 37

Þá mun Lýður Sigurðsson myndlistamaður vera við rennibekkinn og sýna okkur hvernig hann ber sig að við sköpun sína á renndum listaverkum.

Renndir munir eftir Lýð, sem sýndir voru í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum, í vorferð félagsins til Færeyja, síðastliðið vor.

Fréttir af fyrsta haust-vinnufundi félags trérennismiða á Íslandi, 2005.


Fundur trérennismiða sem haldin var laugardaginn 24. september, var vel sóttur.
Gunnar Pálsson og Sigurður Helgason sögðu frá Færeyjaferðinni og fl. lögðu þeim lið. Pétur Eiríksson sýndi okkur skálar úr eik og samlímdar skálar úr hlyn og maghony. Þá tóku menn sér tíma í kaffi og umræður. Að síðustu sýndi Valdór Bóasson okkur hnífa sem hann smíðaði sköft á og leðurhulstur. Hann hafði þá nýverið verið á námskeiði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu.
Vilmundur segir að fræðslunefndin sé komin af stað að vinna efni fyrir næstu fundi, sem verða 29. október og 26. nóvember.Þeim upplýsingum verður komið á framfæri þegar þær berast.

Nú styttist í að vetrarstarfið hefjist.
Fyrsti vinnufundur vetrarins verður haldin laugardaginn 24. september næstkomandi.

Nú er bráðum komið haustjafndægur og þá fara trérennismiðir að dusta rykið af rennibekknum og járnunum eftir sumarfrí.Í vetur er áætlað að halda vinnufundi,líkt og undanfarin ár. Fundirnir verða áfram í smíðadeild Kennaraháskóla Íslands að Skipholti 37, 2. hæð og verða síðasta laugardag í mánuðunum september,október og nóvember, þ.e. sá fyrsti, þann 24. næstkomandi og svo þann 29. október og síðan 26. nóvember. Fundirnir byrja kl.10 f.h. og vara fram undir hádegi, gert er kaffihlé svo hægt sé að spjalla saman. Ekki eru komnar upplýsingar um hvað verður fjallað um á fundunum í vetur né hverjir verða þar með fróðleiksmola handa okkur,enn um leið og þær upplýsingar liggja fyrir verða þær birtar hér.

Frítt net-tímarit á veraldarvefnum um trérennismíði, útskurð og fleira.

Á veraldarvefnum býðst ýmislegt sem áhugavert er fyrir trérennismiði.
Þar er hægt að nálgast mánaðarlegt tímarit um trérennismíði, útskurð og fleira tengt efni. Ef menn eru með netfang þá er hægt að skrá sig í fría áskrift og er þá send tilkynning á netfangið þegar nýtt tölublað er birt á vefnum. Það góða við þetta tímarit er að þeir senda þér ekki allt efnið inn á pósthólfið þitt og fylla þannig kvótann, heldur nálgast maður sjálfur það sem maður vill sjá.
Það má einnig bara fara inn á vef-slóðina þeirar http://www.woodezine.com/ og skoða það sem birt hefur verið, allt aftur til janúar 2004.

Frá opnun sýningar Félags trérennismiða í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum föstudaginn 27. maí 2005.

Fararstjórarnir Hrafnkell Gíslason og Úlfar Sveinbjörnsson,
ásamt Ole Jakob Nielsen, færeyski félagi okkar í trérennismiði og
Landsstjórinn og menntamálaráðherra Jogvan á Lakjuni.

Fréttir af Færeyjaferðinni
Um hádegisbilið í gær lentu 36 ferðafélagar, í Félagi trérennismiða á Íslandi, á Reykjavíkurflugvelli eftir ánægjulega, þriggja daga ferð félagsins til Færeyja. Þar var sett upp í Norðurlanda húsinu, sýning á rendum og útskornum munum fimmtán íslenskra félaga, ásamt lömpum eftir Ola Jakob í Leynum (sem er heimamaður og meðlimur í okkar félagsskap). Þegar komið var til Færeyja beið okkar rúta sem ók okkur beint í Norðurlandahúsið, þar sem félagarnir drógu upp muni sína úr kössum og töskum. Þaðan var svo haldið til Hótel Thorshavn þar sem gist var, í góðu yfirlæti á meðan á dvölinni stóð. Um kvöldið sáu svo valdir félagar, með aðstoð Ole Jakob, um að raða upp þeim munum sem meðferðis voru og gerðu klárt fyrir formlega opnun kl. 14 daginn eftir.
Landstjórinn og menntamálaráðherrann, Jogvan á Lakjuni, heiðraði okkur með því að opna fyrir okkur sýninguna með vinsamlegri tölu og að því loknu voru boðnar léttar veitingar. Á sunnudagsmorgun var svo farið í ferð í Kirkjubæ og skoðaðar minjarnar þar,síðan var aftur haldið til Þórshafnar þar sem Ole Jakob og kona hans slógust í hópin og tók við leiðsögn um eyjarnar, þar sem hápunkturinn að mati flestra var forvitnileg heimsókn í vinnustofu og gallerý Óla Jakobs. Áfram var haldið frá Leynum, margar merkar kirkjur skoðaðar og komið víða við. Um kvöldið var svo snæddur kvöldverður í farfuglaheimilinu í Gjögv. Að kvöldverði loknum var ekin styttsta leið til Thorshafnar. Í gærmorgun var svo rútan aftur mætt að sækja okkur og flytja út á flugvöll, með viðkomu í Norðurlandahúsinu til að taka saman sýninguna. Þar pakkaði hver sínum gersemum og gekk það fljótt og vel.Þegar allt var komið á sinn stað kvöddum við Ole Jakob og frú og afhentum honum rokk úr íslensku birki eftir Gunnar Guðmundsson félaga okkar úr Keflavík, með þökk fyrir höfðinglegar móttökur og ánægjulega samveru. Því miður veiktist einn félagi okkar og gat ekkert verið með okkur þessa daga, enn hann fékk strax læknishjálp og lyf og náði að verða okkur samferða heim, við sæmilega heilsu. Að lokum er aðeins eftir að þakka fararstjórunum, þeim Úlfari Sveinbjörnssyni (Úlli) og Hrafnkeli Gíslasyni, fyrir góða, fræðandi og umfram allt skemmtilega ferð!

Fréttir af trérennismiðum

Félagi okkar, Gunnar Guðmundsson í Keflavík, var með á sýningu handverksmanna í Reykjanesbæ helgina 21. til 23. maí. sl.

Vandræði í fluttningum á léni.
Vegna vandamála sem upp komu í fluttningum á léni trérennismiða á milli þjónustuaðila, hefur heimasíðan, trerennismidi.is, legið niðri um nokkurt skeið.Vonast er til að þessum vandræðum sé nú lokið og að takast megi framvegis að uppfæra fréttir af starfsemi félagsins vandræðalítið.

Aðalfundur 2.apríl 2005
Aðalfundur félagsins var haldin 2.apríl 2005 og var vel mætt. Stjórnin lagði fram reikninga og er staða félagsins góð. Ákveðið var að leggja til hliðar peninga sem nota á til útgáfu á veglegu afmælisriti, sem vonandi verður gefið út bráðlega. Þeir sem hafa í fórum sínum efni sem birta mætti í blaðinu hafi samband við Reyni Sveinsson ritstjóra félagsins.

Reynir Sveinsson gaf ekki kost á sér áfram til formannsstarfa enn heldur áfram sem ritstjóri á fréttabréfinu, enda er það eitt og sér heilmikið starf.
Stjórnin ákveður síðar hvernig hún skiptir með sér verkum.
Eftir fundarstörfin sýndi Guðmundur Magnússon okkur ýmislegt sem hann hefur verið að fást við, þar á meðal tálgun á nytjahlutum s.s. smjörhnífum, spöðum og ausum. Var gerður góður rómur að sýningu hans.

Færeyjarferð 27. - 30. maí 2005
Góð aðsókn er í þessa fyrstu ferð félagsins út fyrir landssteinana. Um 50 manns hafa skráð sig til ferðarinnar.
Vonast er til að sem flestir félagsmenn, sem fara í þessa ferð, taki með sér nokkra rennda listmuni. Áætlað er að setja upp sýning í Norræna húsinu í Þórshöfn, á meðan á dvöl okkar stendur. Í Færeyjum tekur á móti okkur heimamaður sem býr í Leynum, félagi okkar Ole Jakob Nielsen. Verður hann fararstjóri okkar og hefur haft veg og vanda að skipulagi komu okkar til Færeyja. Úlfar Sveinbjörnsson og Hrafnkell Gíslason hafa annast undirbúning hér heima í samvinnu við ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar.

Skáldað í tré - 10 ára rennsli
Í nóvember 2004 hélt félagið afmælissýningu,"Skáldað í tré -10 ára rennsli" í Ráðhúsinu í Reykjavík. 17 félagar sýndu fjölbreytta listmuni á þessari sýningu og fleirri komu að henni á einn eða annan hátt. Almennt álit manna er að vel hafi tekist til með þá sýningu og var hún vel sótt.