Fréttir 2008

Síðasti vinnufundur á þessu ári verður n.k. laugardag 29. nóvember 2008.
Ætlunin að tengja hann jólunum. Því eru félagasmenn og konur hvött til þess að hafa með sér jólaskraut eða annað sem þau hafa rent handa jólasveininum að setja í skóinn. Annars ætla þeir félagar Hrafnkell Gíslason og Úlfar Sveinbjörnsson að vera við rennibekkin.Fundurinn verður eins og vanalegakl. 10 f.h. í Skipholti 37, 2. hæð.

Hugmynd að jólaskrauti fyrir nóvemberfundinn
Hvernig væri að félagsmenn og konur hefðu með sér einhvert jólaskraut sem þeir hafa sjálfir útbúið á næsta vinnufund?
Á eftirfarandi vefslóð er ágætis myndskeið þar sem sýnt er hvernig rend er Keltnesk jólakúla. http://marleyturned.com/
Þarna eru ýmsar aðrar hugmyndir eins og víða á veraldarvefnum.
Það væri gaman að fá að sjá einhverjar útgáfur af jólaskrauti frá félagsmönnum. Ekki vera feimin við að deila með okkur því sem þið eruð að fást við!
Er ekki slagorðið í þjóðfélaginu um þessar mundir að við verðum að standa saman og velja Íslenskt um þessi jól svo að engin lendi nú í jólakettinum.

Vinnufundurin 25. október 2008 
Á næsta vinnufundi Félags trérennismiða á Íslandi mun Niels Peder Miltersen frá Danmörku vera með smá innslag og jafnvel sýna félögum einhvað af því sem hann verður með á sýnikennslum  sínum.  

Sýnikennsla í trérennismíði í Reykjavík og á Sauðárkróki.
Niels Peder Miltersen, kennari frá álaborg í Danmörku verður með sýnikennslu í
trérennismíði í Reykjavík, e.h. laugardaginn 25. október 2008  og í Verkmenntaskólanum
á Sauðárkróki þriðjudagskvöldið 28. október. Miltersen hefur áður komið til Íslands og haldið námskeið í trérennismíði, síðast árið 1996 og var hann þá með námskeið í Reykjavík og á Flúðum. Nauðsynlegt er að skrá sig á sýnikennsluna hjá Niels Peder Miltersen !!

Þeir sem ætla að mæta í Reykjavík hafi samband við Karl Helga í S. 8972280 eða á trelist@simnet.is 

Á Sauðárkróki er það Hjörtur Ingason sem sér um undirbúningin í S. 4535825 eða netfangið barmahlid6@internet.is

Trérennismíði til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands
Í morgunblaðinu 26. október sl. birtist grein um snagan Bínu. Þar sem félagar okkar Úlfar Sveinbjörnsson  og Kristján Heiðberg koma þar við sögu birtum við hér greinina í heild sinni.
 

Snaginn Bína - Minnti á brjóst

Flottur í pari. Hér sést lögun snagans vel og fer vel að hafa tvo saman.
Ólöfu Jakobínu Ernudóttur langaði til þess að fólk gæti styrkt gott málefni og eignast fallegan hlut í leiðinni. Ólöf sem er innanhúsarkitekt er hönnuður bleika snagans Bínu, sem seldur er til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands en eins og margir vita er október helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini.
„Hugmyndin að hönnuninni kemur frá skápahöldu af eldhúsinnréttingum sem voru algengar í húsum byggðum hér á árunum 1950-60. Mér fannst þetta svo fallegt form og langaði að gera eitthvað úr því. Upphaflega ætlaði ég aðeins að gera nokkra snaga í mismunandi litum til að hengja upp á vegg í herberginu hjá syni mínum,“ útskýrir Ólöf Jakobína um hvernig hugmyndin að hönnuninni kom til.
Íslensk hönnun og handverk
Hún segir að ekki hafi verið hlaupið að því að finna einhvern sem gæti gert þetta fyrir hana því ekki margir renni í tré. Hún fann að lokum samstarfsmann í Úlfari Sveinbjörnssyni, sem renndi snaga fyrir hana úr beyki. Þegar hún var komin með prufur í hendurnar minnti lögun snagans, séð aftan frá, hana á brjóst. „Þá fékk ég þessa hugmynd að sprauta hann bleikan og leggja Krabbameinsfélaginu lið í leiðinni,“ segir hún. Málefnið stendur henni nærri en móðir hennar lést úr brjóstakrabbameini fyrir 15 árum. Kristján Heiðberg hjá Glugga- og hurðasmiðju Selfoss sá síðan um að sprauta snagana bleika en Ólöf Jakobína lét framleiða 100 stykki af hönnun sinni.
„Snaginn er seldur á ekki ósvipuðu verði og happdrættismiði. Þarna leggurðu góðu málefni lið og færð nytjahlut í staðinn sem framvegis minnir þig á að mæta á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og vera á varðbergi, sem er ekki síður ætlunin,“ segir hún.
Fyrir sloppa, slæður og festar
Snagann er hægt að nota með ýmsu móti. „Það er hægt að hengja herðatré á hann. Líka fer mjög vel um hálsfestar á snaganum og slæður. Einnig er hægt að setja snaga upp í eldhúsinu fyrir viskastykkin eða setja nokkra í röð upp í svefnherberginu fyrir föt í notkun og baðsloppinn,“ nefnir hönnuðurinn sem dæmi.
Snaginn, sem kostar 2.500 krónur, er til sölu í Epal, þar sem Ólöf Jakobína vinnur, og Sirku á Akureyri, heimabæ hönnuðarins. Allur ágóði af sölunni fer til Krabbameinsfélagsins.
ingarun@mbl.is
Úlfar hafði sjálfur tekið þessar skemmtilegu myndir af snögunum.



 
Á YouTube eru mörg myndskeið um trérennismíði
Ef þið vafrið um á YouTube og flettið undir woodturning, þá má fynna þar mörg fræðandi myndskeið um trérennismíði.
Hér á eftir er t.d. slóð þar sem farið er nokkuð nákvæmlega yfir hvað þarf til þess að renna penna. http://www.youtube.com/watch?v=JgipMJYyyuc

Fyrsti vinnufundur haustsins laugardaginn 27. september 2008.

Við eigum von á Finnskum kennara sem kennir við trétækniskóla í  Finnlandi og hefur unnið við trérennismiði í 15 ár.
Hann heitir Jarno Korhonen, kíkið inn á heimasíðuna hanns http://www.onewood.fi/ 
Af því sem þar er að finna má ætla að fundurin geti orðið mjög fræðandi en hann hefur samþykkt að vera með stutta sýnikennslu fyrir okkur.

Eins og fyrri ár verður fundurin í húsnæði smíðadeildar Kennaraháskóla Íslands , Skipholti 27, 2 hæð kl. 10 f.h.

Þar sem Jarno Korhonen verður með stutta sýnikennslu væri gaman ef menn og konur sæju sér fært um að koma með einhvað af því sem þau eru að fást við á rennibekknum. Einnig er tilvalið að koma með muni sem menn eiga í einhverjum vandkvæðum með, það er oft ótrúlega mikið auðveldara að leysa vandamálin í sameiningu!

Og svo er að sjálfsögðu heitt á könnunni í hléinu


Uppskera & handverk - Miðaldaþema 2008. http://www.handverkshatid.is


List- og handverkshátíð haldin við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit dagana 8. til 10 ágúst 2008.

Félagar úr Félagi trérennismíða á Íslandi munu, líkt og undanfarin ár, vera á staðnum og kynna félagsstarfið ásamt því að sýna handverkið í bekknum á verkstæði handverksmanna.
Myndir frá uppskeru & handverkssýningunni við Hrafnagilsskóla dagana 8. til 10. ágúst 2008.

Óundirbúin sýnikennsla Sam Webber á Íslandi í júní sl.

Fyrr í sumar hafði Sam nokkur Webber samband, þar sem hann væri á leið til Íslands í sumarfrí og langaði að hitta íslenska trérennismiði ef nokkur möguleiki væri á þvi. Sam er fyrrverandi hermaður Bresku krúnunnar og góðvinur og nágranni Stuart Mortimer. Stuart ætti að vera einhverjum íslenskum trérennismiðum kunnur en hann hélt hér sýnikennslu fyrir nokkrum árum síðan.Hann er talinn vera eitt af þekktari nöfnum innan trérennismíðinnar. Skoðið heimasíðuna.

http://stuartmortimer.s411.sureserver.com/index.html

Haft var samband við þá félagsmenn sem í náðist með mjög stuttum fyrirvara og hittust þeir í bílskúrnum hjá Karli Helga. Þrátt fyrir að þetta væri í fyrsta sinn sem Sam reyndi sig við að sýna á rennibekknum og ekki er svo ýkja langt síðan að hann fyrst byrjaði í trérennismíði,höfðu flestir viðstaddir gaman af, enda býr hann við þau forréttindi að hafa verið í læri hjá meistara Stuart.

Smelltu hér til þess að sjá myndir

Á 14. aðalfund Félags trérennismiða á Íslandi, 29. mars sl. mættu 50 manns.
Á fundinum var borin fram tillaga um hækkun félagsgjalds, en sú tillaga var feld. Að loknum venjulegum fundarstörfum og kosningu stjórnar og nefnda var ætlunin að Trausti sýndi samlímingar en í fjarveru hans var Bjarni þór með smá kynningu á hvar mætti nálgast ýmiskonar efni fyrir trérennismíði.

Vetrarstarfið í fullum gangi.
Vinnufundirnir hafa verið vel sóttir það sem af er vetri. Stjórnin gerir sitt besta til að koma fram með áhugavert efni til að sýna á vinnufundunum. Næsti fundur er á laugardaginn og þar ætla tveir félagsmenn að deila með okkur fróðleik sem þeir luma á.
Á fundinum í mars eru svo aðalfundarstörfin í aðalhlutverki, en eitthvað verður þar líklega einnig til fróðleiks gert. Í apríl er svo vorferðin. Ferðanefndin er að skipuleggja hvert verður farið þetta árið .

Óskað eftir tillögum um efnistök á vinnufundum!
Það getur verið  erfitt að koma alltaf með einhvað nýtt og ferskt til að sýna á vinnufundunum.
Fræðslunefndin og þeir aðrir sem að vinnufundunum standa, þætti vænt um að heyra frá félagsmönnum hvað þeir vildu að tekið væri fyrir á næstu fundum. Oft getur lítil spurning velt af stað löngum vangaveltum.
Verið ófeimin við að bera upp spurningar og tillögur á vinnufundunum, til þess eru þeir haldnir!

Kennslumyndbönd sem hægt er að horfa á, á netinu
Ef einhverjir hafa áhuga,þá eru á vefslóðinni  http://www.turnwood.net/  margskonar stutt kennslumyndbrot sem hægt er að skoða
Þar sem styttist til jóla þá er þarna ágæt mynd um hvernig er búin til jólakúla með jólatré innaní. http://marleyturned.com/id126.htm
Eflaust lítið mál fyrir mörg ykkar.

Vinnufundurinn 26. janúar 2008.
44 mættu á þennan fyrsta vinnufund ársins 2008 og ekki annað hægt að segja en að vel væri mætt.

Hrafnkell Gíslason byrjaði á að sýna hvernig hann ber sig að við viðarlitununa.
Að hans mati taka Askur og Eik best við litarmeðferðinni. Ítarlega grein um þetta efni, eftir Hrafnkel ,má finna undir GREINAR hér á heimasíðunni.

Í hléinu bar, Sigurður Már Helgason, veitingastjórinn okkar  fram rjúkandi heitt kaffi og nýbökuð vínarbrauð.
Eftir kaffihlé renndi Trausti strávasa úr gullregni sem legið hafði tvö ár í þurki í bílskúrnum hjá honum. Einnig sýndi hann hvernig á að beita baugjárni og hefiljárni.

Einar Sigurbergsson kom með og sýndi okkur nokkra muni sem hann hefur rennt.
Alltaf er fróðlegt að sjá hvað félagsmenn og konur eru að fást við. Gott væri að sem flestir kæmu með muni sem þeir eru ánægðir með.Einnig mættu menn koma með muni sem þeir  eiga í einhverjum vankvæðum með, það er aldrei að vita nema einhver lúri á góðri lausn sem hann eða hún er tilbúin að deila með okkur!

Fyrsti vinnufundur ársins 2008.
Laugardaginn 26. janúar n.k. verður fyrsti vinnufundur á þessu nýbyrjaða ári.Eins og vanalega hittast félagar í Félagi trérennismiða á Íslandi og annað áhugafólk um trérennismíði í Skipholti 27, 2 hæð kl. 10 f.h.

Á þessum fundi ætlar Trausti B. Óskarsson að vera við rennibekkinn og Hrafnkell Gíslason að sýna oklkur hvernig hann litar viðinn.

Heitt á könnuni í hléinu!