Að lita tré með akríllitum - eftir Hrafnkell Gíslason
 
 

Ef lita á rennt tré með akríllitum þarf að pússa hlutinn mjög vel og enda með mjög fínum sandpappír t.d. 400 grit.

Síðan er mjög gott að vatnsbera hlutinn, láta hann þorna vel og að lokum pússa með fínum pappír eða slípimottu.

Mjög mikilvægt er að losna við allar þverrispur úr viðnum því ef t.d. endað er með hvítu laming vaxi er hætt við að hvítar þverrákir verði á hlutnum.

Nú er komið að því að velja liti. Mér hefur reynst mjög vel að nota matta liti sem ég kaupi í næstu föndurbúð í litlum dósum.

Þegar búið er að velja rétta litinn er best að þynna aðeins það magn sem maður ætlar að nota hverju sinni.
Gott er að prufa litinn á sama efni og hluturinn sem á að lita er úr.

Næst er komið að sjálfri lituninni. Þá byrjar maður á því að bleyta viðinn aðeins með rökum svampi, en það er gert til þess að opna viðinn svo að liturinn gangi betur í samband við hlutinn sem unnið er með.

Ef ekki á að lita allan hlutinn t.d. bara rönd á disk á bara að bleyta þann hluta sem lita skal.
Þegar búið er að bleyta viðinn ber maður litinn á og er best að nota frekar stífan pensil.
Ef maður er ekki ánægður með árangurinn getur maður málað aðra umferð yfir þegar liturinn hefur þornað.

Þá er komið að yfirborðs meðferðinni. Þegar liturinn hefur þornað vel er mjög gott að pússa yfir með pappír eða mottu.
Varast þarf að pússa ekki í gegn um litinn á skörpum brúnum og bugðum.
Ef ekki á að lita meira er hluturinn tilbúinn undir olíu eða lakk.

Ef lita á meira ofan á í þann lit sem kominn er t.d. með hvítu eða svörtu vaxi þarf að grunna allan hlutinn með sellulosa eða spritt grunni, láta þorna vel og slípa síðan með mottu eða fínum pappír.

Þegar búið er að slípa er mjög gott að hreinsa vígindin í viðnum með stífum bursta til að fá pláss fyrir vaxið.
Síðan ber maður vaxið á með pappírsklút, lætur það þorna smá stund og þrífur síðan umframvaxið af með klút bleyttum í olíu.

Ekki má spara pappírsklútana, nota sífellt hreinan pappír.
Þegar búið er að þrífa allt vaxið af hlutnum, nema það sem eftir situr í vígindunum er hægt að bera á hann olíu
eftir smekk hvers og eins og þar með er verkið fullbúið.