Aðalfundur Félags Trérennismiða á Íslandi

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi 28.mars 2009.

Góðir félagar ég býð ykkur velkomna á aðalfund Félags trérennismiða á Íslandi 2009.
Við höfum mætt hingað síðasta laugardag í hverjum mánuði síðan í lok september og brátt verður þessu úthaldi lokið með hinni árlegu vorferð félagsins í lok apríl þann 25. sem ber uppá kosningadag að ég held og verða félagar þá að vera búnir að kjósa svo að þeir geti farið frjálsir vegna samviskubits stjórnmálanna.

Hefur hópurinn sem tekur þátt í starfi félagsins verið að stækka á liðnum árum og er svo komið að húsnæðið setur okkur nokkrar skorður með þessa fræðslufundi eins og þeir eru skipulagðir. Það hafa verið um 50 til 60 manns á þessum fundum og er stjórnin mjög ánægð með þessa góðu þátttöku félaga og gesta sem koma hingað víða að, jafnvel um langan veg utan af landi sem hér af höfuðborgarsvæðinu. Eru félagar nú samkvæmt spjaldskrá 205 sem greiddu árgjald á síðasta ári. Eins og allir vita eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir og hvet ég félaga að taka með sér gesti sem hafa áhuga á þessu hugðarefni okkar.

Á liðnu starfsári var stjórnin þannig skipuð:
Formaður: Valdór Bóasson
Gjaldkeri:  Antonía Sveinsdóttir
Ritari: Reynir Sveinsson
Meðstj.:   Úlfar Sveinbjörnsson, Jón Guðmundsson
Varastjórn: Guðmundur Magnússon, Kristján Heiðberg,
Karl Helgi Gíslason,
(Endur-)Skoðendur: Stefán Jóhann Jónsson, Þorsteinn Gíslason
Ritstjóri fréttabréfs: Reynir Sveinsson
Sýninganefnd: Karl Helgi Gíslason, Lýður Sigurðsson
Fræðslunefnd: Bjarni Þór Kristjánsson
Veitingastjóri:  Sigurður Már Helgason
Ferðanefnd; Úlfar Sveinbjörnsson, Einar Óli Einarsson.
Öllu þessu góða fólki þakka ég fyrir samstarfið og fyrir mjög vel unnin störf á liðnu ári.
Undirstaðan í starfi félags okkar eru þessir fræðslufundir hér í Skipholtinu og sú fræðsla sem fræðslunefndin hefur verið með á sínum snærum. Öllum þeim sem hafa komið að því að fræða okkur hin um tækni og leyndarmál trérennilistarinnar vil ég þakka og segja að án þeirra framlags og kunnáttu og góðu hugmynda erum við hinir minni spámenn sí þakklátir og vonum að við fáum að njóta ykkar sem lengst.

Fræðslufundirnir eru búnir að vera mjög fjölbreyttir í vetur.
Á september fundinum var finnskur kennari Jarno Karhonen frá Finnlandi og sýndi hann okkur hvernig ætti að renna allavega kúlur með götum og göddum. Sýndi hann okkur og seldi rennijárn og skipti svo okkar krónum yfir í evrur og var hinn kátasti með þessi viðskipti.

Á október fundinum var Niels Peder Miltersen frá Danmörku sem er okkur vel kunnur. Hann var að koma í annað sinn til að halda námskeið fyrir trérennismiði, var hann hér með námskeið fyrir tíu árum. Var hann með sýnikennslu bæði hér í Reykjavík og á Sauðárkróki. Þrátt fyrir allgóða þátttöku var þetta nokkuð kostnaðarsamt fyrir félagið þar sem ekki mættu allir sem voru skráðir á sýnikennsluna og var því nokkur undirballans á þessari heimsókn sem við lærum af og skipuleggjum öðruvísi næstu heimsókn leiðbeinanda erlendis frá. Voru flestir mjög ánægðir með þessa heimsókn og vona ég að félagar okkar á norðurlandi hafi notið vel heimsóknar Miltersens á Sauðárkróki. Vil ég þakka Karli Helga Gíslasyni og hans konu fyrir að hýsa Miltersen og hans frú meðan á dvöl hans stóð hér á landi.

Á nóvember-fundinum var Hrafkell og Úlfar með sýnikennslu og sýndu okkur hvernig á að renna nálarhús og jólatré. Frábært að öllu leyti hjá þeim félögum.

Á janúar-fundinum sýndu Bjarni Þór og Úlfar okkur hvernig hægt er að skera út í renndar skálar og sýndu þeir að þar eru mjög flinkir listamenn á ferð.

Á febrúar-fundinum kom Guðmundur Kristinsson og fór yfir helstu atriði varðandi öryggi við rennibekkinn og greindi frá slysum sem geta hlotnast af ef ekki sé fyllsta ögyggis gætt. Vilhjálmur fjallaði um tæki og tól til að gera skrúfgang í trjávið. Einnig var Trausti með rennsli í ferskan við og renndi hann skál og sýndi okkur tækni á heimsmælikvarða.

Á síðasta fundi kom góður gestur frá Handverkshúsinu færandi hendi og gaf félaginu 5 bækur um trérennismíði og erum við mjög þákklátir fyrir þessa góðu gjöf og vona ég að félagar kíki í Handverkshúsið og sýni þakklæti sitt með því að verlsa þar verkfæri og fleira.

Fyrir utan fræðslufundina var félagið með sýnikennslu í trérennsli sem var haldin í Kópavogsskóla og sóttu hana um 10 félagar og var Trausti sem stýrði rennijárnum með sýnu lagi við góðar undirtektir viðstaddra.

Heimasíða félagsins er að fá upplyftingu og er Einar Óli Einarsson að vinna í því ásamt að vinna að hagræðingu við kostnað við tölvumál og pappírs vegna fréttablaðs, en mikill pappír og blek fer við að prenta yfir 200 fréttablöð, og svo póstburðargjöld sem kosta sitt.
Er fréttablaðið mikilvægur þáttur í því að félagar okkar á landsbyggðinni geti notið þess að vera í félaginu þar sem sumir þeirra eiga ekki gottt með að koma á fræðslufundina okkar.

Í janúar var tekin ákvörðun um að gefa Kennara-háskólanum 2/3 hlut í vönduðum trérennibekk og var keyptur rennibekkur og hann afhentur á janúar-fundinum og fyrir hönd K.H.Í. var Brynjar Ólafsson lektor viðstaddur og tók við gjöfinni sem er þakklætisvottur frá félaginu fyrir afnot af húsnæðinu í gegnum árin.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að menn og konur dundi sér við rennibekkinn. Sumir að sækja ánægju og tilbreytingu frá önnum dagsins og renna sér til skemmtunnar og gleði. Aðrir sem eru að reyna að framleiða einhverja afurð við rennibekkinn og þurfa að koma afurð sinni á framfæri. Nú eru skrýtnir tímar hér á landi og kannski gætu þessar aðstæður verið íslensku handverki hagstæðir og erlendir sem innlendir ferðamenn fari að kaupa listmuni sem eru renndir af félögum úr þessum hóp. Hefur Sigurður Már Helgason félagi okkar tekið að sér að koma verkum okkar á framfæri og eru þeir sem hafa hluti sem þeir halda að hafi möguleika á að vera settir sem söluvara í verslanir samband við Sigurð Má og fá ráðleggingar um markaðsmál og hvernig eigi að bera sig að. Netfangið hjá Sigurði Má er: HYPERLINK "mailto:modelhusgogn@simnet.is" modelhusgogn@simnet.is

Að lokum er að þakka ykkur félagar góðir fyrir ykkar þátttöku í störfum félagsins og vona að þið verðið áfram duglegir að taka þátt í starfi félagsins svo að þetta félag okkar haldi áfram sína leið.

Ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt að vera í formannssætinu í þessum góða og skemmtilega hóp sem er rekinn áfram af áhuga á því að standa í skotlínunni að trérennslisspænum og ryki frá rennibekknum. Í fyrrakvöld þegar ég var að fara að byrja að setja þessa skýrslu saman þá var ég ekki í meira stuði en svo við skriftir að ég fór út í skúr og renndi um stund og sat því langt fram á nótt við að klára þessar minningar frá liðnu starfsári Félags trérennismiða á Íslandi.
Takk fyrir samveruna nú í vetur og takk fyrir mig.
Valdór Bóasson.