Vorferð Félags trérennismiða á Íslandi til Færeyja 2005

Um hádegisbilið í gær lentu 36 ferðafélagar, í Félagi trérennismiða á Íslandi,
á Reykjavíkurflugvelli eftir ánægjulega, þriggja daga ferð félagsins til Færeyja.
Þar var sett upp í Norðurlanda húsinu, sýning á rendum og útskornum munum fimmtán íslenskra félaga, ásamt lömpum eftir Ola Jakob í Leynum (sem er heimamaður og meðlimur í okkar félagsskap).
Þegar komið var til Færeyja beið okkar rúta sem ók okkur beint í Norðurlandahúsið, þar sem félagarnir drógu upp muni sína úr kössum og töskum. Þaðan var svo haldið til Hótel Thorshavn þar sem gist var, í góðu yfirlæti á meðan á dvölinni stóð. Um kvöldið sáu svo valdir félagar,með aðstoð Ole Jakob, um að raða upp þeim munum sem meðferðis voru og gerðu klárt fyrir formlega opnun kl. 14 daginn eftir.

Landstjórinn og menntamálaráðherrann, Jogvan á Lakjuni, heiðraði okkur með því að opna fyrir okkur sýninguna með vinsamlegri tölu og að því loknu voru boðnar léttar veitingar.
Á sunnudagsmorgun var svo farið í ferð í Kirkjubæ og skoðaðar minjarnar þar, síðan var aftur haldið til Þórshafnar þar sem Ole Jakob og kona hans slógust í hópin og tók við leiðsögn um eyjarnar, þar sem hápunkturinn að mati flestra var forvitnileg heimsókn í vinnustofu og gallerý Óla Jakobs.Áfram var haldið frá Leynum, margar merkar kirkjur skoðaðar og komið víða við. Um kvöldið var svo snæddur kvöldverður í farfuglaheimilinu í Gjögv.
Að kvöldverði loknum var ekin styttsta leið til Thorshafnar.
Í gærmorgun var svo rútan aftur mætt að sækja okkur og flytja út á flugvöll, með viðkomu í Norðurlandahúsinu til að taka saman sýninguna. Þar pakkaði hver sínum gersemum og gekk það fljótt og vel. Þegar allt var komið á sinn stað kvöddum við Ole Jakob og frú og afhentum honum rokk úr íslensku birki eftir Gunnar Guðmundsson félaga okkar úr Keflavík, með þökk fyrir höfðinglegar móttökur og ánægjulega samveru.
Því miður veiktist einn félagi okkar og gat ekkert verið með okkur þessa daga, en hann fékk strax læknishjálp og lyf og náði að verða okkur samferða heim, við sæmilega heilsu.
Að lokum er aðeins eftir að þakka fararstjórunum, þeim Úlfari Sveinbjörnssyni(Úlli) og Hrafnkeli Gíslasyni fyrir góða, fræðandi og umfram allt skemmtilega ferð!