Óskum eftir þátttakendum og aðstoðarfólki fyrir afmælissýningu félagsins

Óskum eftir þátttakendum og aðstoðarfólki fyrir afmælissýningu félagsins

6. mars, 2025
andri.snaer.th@gmail.com

Í tilefni af 30 ára afmæli félagsins mun félagið taka yfir sýningarrými Handverks og hönnunar á Eiðistorgi, í 30 daga, allan aprílmánuð. Við byrjum á því að breyta rýminu í vinnustofu, með þeim tækjum og búnaði sem þarf til trérennismíða. 
Rennibekkur félagsins verður miðjupunktur vinnustofunnar og fyrri hluti aprílmánaðar fer í að renna! Félagar munu þá mæta hver á eftir öðrum og renna ný verk. 
Um miðjan apríl verður vinnustofunni breytt í sýningarrými. Sýningin stendur út aprílmánuð og afrakstur vinnustofunnar verður til sýnis (og sölu, ef áhugi er fyrir því).

Vinnustofan verður í 15 daga og verður hverjum degi líklega skipt í tvær vinnulotur. Á vinnustofunni verður einn rennibekkur og gert er ráð fyrir að ein/n vinni í einu. Það er þó leyfilegt að skrá sig í pörum, að 2 félagar deili vinnulotu og vinni til skiptis. Fyrir félaga sem eru áhugasamir en reynsluminni (eða vilja nýta tækifærið og fá góð ráð) verður hægt að óska eftir að hafa reynslumeiri félaga (mentor) á staðnum. Því væri gott ef reynslumeiri félagar myndu skrá sig á lista sem mentor, hvort sem þeir séu líka skráðir á vinnustofu eða ekki. 
Vinnustofan verður nokkurs konar innsetning í sýningarrými H&H og verður því eflaust áhugavert fyrir fólk sem á leið hjá að líta inn um gluggann og sjá vinnuna á bakvið handverkið. Vinnustofan sjálf verður þó ekki opin gestum og gangandi, svo félagar munu geta rennt í friði og þurfa ekki að vera í gestgjafahlutverki.
Þátttakendur komi sjálfir með rennijárn og það hráefni sem þarf en félagið gæti líka aðstoðað með þessa hluti ef þarf. 
Stefnt er að því að hafa á staðnum, fyrir utan rennibekkinn: bandsög, brýnsluaðstöðu, persónuhlífar, sandpappír, borvél, einhver rennijárn, eitthvað úrval af hráefni, lofthreinsikassi, spónsuga, ryksuga og minni verkfæri (skrúfjárn/bitar, skrúfur, reglustikur, rennimælir, blýantar, bréf...)

Skipulagið er í grófum dráttum svona:
24. – 31. mars: Uppsetning á vinnustofu
Vinnustofa standsett. Vélum, verkfærum, brýnsluaðstöðu, hillum, hráefni og öðru nauðsynlegu stillt upp.
1. – 15. apríl: Vinnustofa
Þátttakendum er raðað á þessa daga, líklega tvískipt (t.d. 10-14 og svo 14-18).
16. – 19. apríl: Tiltekt/uppsetning á sýningu
Tiltekt á vinnustofu og sýningarrými sett upp á sama stað.
22. – 30. apríl: Sýning
Sýning á afurðum vinnustofu.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á andri.snaer.th@gmail.com 
Takið fram nafn, símanúmer og hvort óskað sé eftir:
*Að taka þátt í sýningu, með því að renna á vinnustofunni (látið vita ef óskað er eftir mentor á staðnum). Takið fram ef óskað er eftir ákveðinni dagsetningu eða tíma dags.
*Að vera skráð/ur sem mentor.
*Að aðstoða við uppsetningu á vinnustofu.
*Að aðstoða við að ganga frá vinnustofu, áður en sýning hefst.

Þetta verður skemmtilegur og eftirminnilegur viðburður og því vona ég að félagar taki vel í þessa auglýsingu.

Allur réttur áskilinn. Félag trérennismiða á Íslandi.